Klúbbþing

Miðvikudaginn 12. september 

20. desember 2007

Mánaðarbréf umdæmisstjóra nr. 5, . desember, 2007

Kæru forsetar, ritarar og aðrir Rótarýfélagar

 

Þegar þessar línur eru settar saman eru jólin mjög farin að nálgast. Þar með er hálft starfsár mitt nánast liðið og ég get fullvissað ykkur um að þessi tími hefur liðið hratt. Það er ærið verkefni að sinna umdæmisstjórastarfinu meðfram fullri vinnu en það er hins vegar afar skemmtilegt og gefandi og ekki ástæða til þess að sjá eftir þeim tíma sem fer í að sinna málefnum Rótarý.

            Í þessu mánaðarbréfi ætla ég að nefna eitthvað af því sem borið hefur hæst á starfsárinu fram að þessu og önnur málefni sem koma upp í hugann.

 

Þema mánaðarins

Þema desember er Rótarýfjölskyldan. Á síðari árum hefur fjölskyldu félagannna verið veitt vaxandi vægi í starfi Rótarý. Eins og fyrrum heimsforseti Rotary International Bill Boyd orðaði það hefur það aldrei verið vilji Rótarý að taka félagana frá fjölskyldunni. Starf hvers klúbbs verður áhugaverðara og skemmtilegra ef það verður lagað að því að fjölskyldan verði virkari. Það er vert að gefa þessu gaum um jólin.

            Þema janúar er Rótarý skilningur (Rotary Awereness). Það er ábending um að efla fræðslu og auka skilning á starfi og markmiðum Rótarý og þeim áherslum sem lagðar eru á hverju ári. Það er ágæt leið í þessum tilgangi að fá einhvern úr nefndum umdæmisins til þess að fjalla um verkefni viðkomandi nefndar.

 

Friðarstyrkurinn

Ég var að fá bréf í netpósti þar mér er tilkynnt að umsækjandi okkar umdæmis um friðarstyrk Rótarý (Rotary World Peace Fellow) Helga Bára Bragadóttir hafi fengið þessa viðurkenningu. Um leið og ég óska henni til hamingju get ég ekki látið hjá líða að  geta þess að Helga Bára er sjöundi styrkþeginn frá Íslandi til þess að hljóta þessa vegsemd. Reglur um þessa styrki kveða á um að einungis einn umsækjandi geti komið frá hverju umdæmi og það eru veittir allt að 60 styrkir á ári og umsækjendur eru valdir í samkeppni við hvern annan.

Þar sem þetta er sjöunda skiptið sem þessi styrkur er veittur þýðir það að fulltrúi Íslands hefur fengið styrk öll skiptin, sem styrkurinn er veittur. Þetta er glæsilegur árangur, sem við getum öll verið stolt af, þótt umsækjendur hvers árs eigi auðvitað stærstan hlut í heiðrinum. Mér er ekki kunnugt um hvort nokkuð annað umdæmi hefur náð þessum árangri en í fyrra var aðeins eitt umdæmi auk okkar með þennan árangur.

Ég læt bréfið þar sem mér var tilkynnt þessi niðurstaða fylgja með til fróðleiks.

 

Heimsóknir umdæmisstjóra

Ég hef nú heimsótt alla Rótarýklúbbana nema þann elsta, Rótarýklúbb Reykjavíkur. Það kom upp misskilningur á fundartíma þar og heimsókn þangað mun því bíða upphafs næsta árs.

Ég vil endurtaka það sem ég hef áður sagt að þessar heimsóknir hafa verið afar ánægjulegar og skemmtilegar. Það er gaman að sjá hve klúbbarnir eru misjafnir. Hver klúbbur hefur komið sér upp eigin siðum og hefðum og stemningin í hverjum klúbbi er sérstök. Það er verkefni stjórnar hvers klúbbs að gæta að því að þessir siðir og hefðir haldist og þróist með eðlilegum hætti. Þannig haldast sérkenni hvers klúbbs sem stuðla að stöðugleika sem félagar sækjast eftir. Það er á ábyrgð sitjandi stjórnar að gæta að þessu.

 

Tónleikar Rótarý

Nú hefur dagskrá Stórtónleika Rótarý verið kynnt, miðasala hafin og allur undirbúiningur í fullum gangi. Eins og við var að búast var nánast uppselt á fyrri tónleikana strax og sala miða hófst.

Seinni tónleikarnir verða haldnir laugardaginn 5. janúar kl. 17 og samkvæmt upplýsingum frá Salnum í Kópavogi, þar sem tónleikarnir verða haldnir eru örfáir miðar á þá tónleika enn þá óseldir.

 

Stjórnarkjör

Nú eiga klúbbarnir að vera búnir að kjósa stjórn hvers klúbbs fyrir næsta ár og forseta fyrir starfsárið 2008/2009. Ég vil minna ritara á að senda umdæmisskrifstofunni upplýsingar um væntanlega stjórn og einnig að minna verðandi forseta á að mæta á forsetafræðslumót í Háskólanum í Reykjavík kl. 10 laugardaginn 19. febrúar n.k. og  þá og verðandi ritara á formótið föstudaginn 30. maí. Það er litið svo á að verðandi embættismönnum beri að mæta á þessi mót og að það sé nauðsynlegur undirbúningur fyrir starfsárið.

 

Áminning til forseta/ritara/gjaldkera

Ég vil enn á ný minna á greiðslur til Rotary International. Klúbbarnir greiða þessi gjöld beint til RI og þau ber að greiða fyrir áramót. Ella geta þeir klúbbar sem ekki standa skil á greiðslum átt á hættu að verða lagðir niður. Vonandi hafa allir áttað sig á þessu.

 

Betrumbætt heimasíða

Ég gat þess í síðasta mánaðarbréfi mínu að nú er unnið að því að endurnýja vefsíðuna okkar og er vonast til að ný og notendavænni heimasíða – sem verður reyndar miklu meira en heimasíða – verði tilbúin á vordögum. Það verður kynnt betur síðar.

            Rotary International hefur einnig endurnýjað sína heimasíðu og hún er nú að sögn miklu auðveldari til skoðunar en áður. Það er ástæða til þess að hvetja félaga til þess að kynna sér málefni Rótarý með því að skoða hina endurbættu síðu www.rotary.org.

 

Markmið umdæmisins

Ég vil minna ykkur á að umdæmið hefur sett sér fimm markmið á þessu starfsári. Í fyrsta lagi viljum við að klúbbunum fjölgi um einn að minnsta kosti. Að þessu er unnið undir stjórn Steinars Friðgeirssonar fyrrverandi umdæmisstjóra.

Í örðu lagi viljum við fjölga félögum og stefnum að því að verða 1200 í lok starfárs. Þetta er fjölgun um 3 til 4 félaga á klúbb og vil ég skora á ykkur að reyna að ná þessu marki. Þessu markmiði verður ekki náð nema með ykkar hjálp.

Í þriðja lagi viljum við sjá að allir klúbbar umdæmisins styðji Rótarýsjóðinn “The Rotary Fondation”. Rótarýsjóðurinn er flaggskip hreyfingarinnar og í nafni þessa sjóðs er unnið frábært starf á mörgum sviðum.

Það hefur lengi verið opinbert markmið heimsforseta að fá klúbbana til þess að styðja Rótarýsjóðinn með framlagi sem nemur 100 US dollara á ári. Það höfum við sett sem fjórða markmið umdæmisins þetta starfsár.

Í síðasta lagi óskum við eftir að starf klúbbana verði sýnilegra í samfélaginu en það er. Flestir klúbbar eru að vinna að góðum málefnum heima fyrir og margir taka auk þess þátt í alþjóðlegu starfi á ýmsum sviðum. Það myndi styrkja hreyfingun og hugsanlega laða fleiri til samstarfs ef þetta starf væri ögn sýnilegra en það er nú.

Ég vona að allir klúbbar og félagar vinni með okkur að því að ná þessum markmiðum á strarfsárinu.

 

Jól og áramót

Ég vil nota þetta tækifæri til þess að óska ykkur gleðilegra jóla og farsæls árs. Ég þakka samstarfið á því ári sem er að líða. Það hefur verið afar gaman að heimsækja klúbbana ykkar og að hitta allt það fólk sem þetta starf hefur gefir mér tækifæri til.

 

 

 

 

Bestu kveðjur,

 

Pétur Bjarnason

umdæmisstjóri 2007/2008

 

 


Til baka


yfirlit frétta

SMÞMFFL
28293031123
45678910
11121314151617
18192021222324
2526272829301
2345678
<Júní 2023>
Fundarefni
Hlekkir

 Rótaryumdæmið á Íslandi

 

URR - Unglinganámskeið Rótarý í ræðulist

 

 

  Vesturför 2005