Klúbbþing

Miðvikudaginn 12. september 

5. nóvember 2004

Búdapest fararnir komnir heim

Ferðasdagan 

 

Ferð Rótarýklúbbsins Görðum til Budapest og Ungverjalands
frá föstudeginum 29. október til mánudagsins 1. nóvember 2004.


Föstudagurinn 29. október.


Ferðalangar í ferð Rótarýklúbbsins Görðum til Budapest tíndust einn af öðrum inn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar um klukkan 7:30 að morgni föstudagsins 29. október. Í flugstöðinni var ys og þys en öðru hvoru brá fyrir andlitum sem ferðalangar þekktu sem samferðamenn sína.

Í ferðinni voru:
Ingibjörg Haukdsóttir, forseti klúbbsins
Ólafur Nilsson og Guðrún Ólafsdóttir
Guðmundur Hallgrímsson og Anna Guðrún Hugadóttir
Páll Bragi Kristjónsson og Stefanía Ingibjörg Pétursdóttir
Jón Guðmundsson og Jóhanna Hreinsdóttir
Sigurður Briem og Þóra G. Möller
Skúli G. Böðvarsson

Svavar Jónatansson og Marta Magnúsdóttir

Þóra Karlsdóttir
Sigurður Björnsson og Greta Håkansson
Sverrir Sv. Sigurðarson, sonur Sigurðar og Gretu.

Flugvélin var merkt Loftleiðum en var þó nýleg Boeing 757 vél. Gamalt slagorð þess félags var “slower but lower”, þegar blankur stúdent að nafni Bill Clinton flaug með félaginu yfir hafið á sjöunda áratugnum, og kom það í hugann. Flugtak tafðist þar sem talstöð var biluð, ekki var hægt að sýna kvikmynd um borð þar sem myndbandstæki var bilað einnig og handlaug á salerni virkaði ekki. Þetta var að öðru leiti snyrtileg vél og ferðin hin þægilegasta.

Nokkur bið var eftir farangri á flugvellinum í Budapest, en svo var ekið að hótel Novotel Congress, sem var ágætis dvalarstaður í dæmigerðum alþjóðlegum hótelstíl. Um kvöldið var haldið í ferð með fljótabát á Dóná. Þar var í boði hlaðborð, sem svignaði undan góðum mat, með þessu var gott ungverskt vín á hverju borði, og var ljóst að Ungverjarnir vildu gera vel við gesti sína og kannski byggja upp jákvætt orðspor. Með í för var yfir-fararstjórinn Ferenc Utassy, sem er ungverji og mörgum á Íslandi að góðu kunnur sem kórstjóri og organisti, m.a. við Garðakirkju, og Gunnhildur Gunnarsdóttir, sem hafði búið í Austurríki í 16 ár og var fólki þar eflaust að góðu kunn einnig enda hin indælasta manneskja.

Eftir borðhaldið komu dansarar, karl og kona, og sýndu ungverska þjóðdansa með miklu fjöri. Ingibjörg Hauksdóttir var rifin upp í snúning og stóð sig vel. Undir borðhaldi og fram eftir kvöldi spilaði hljómsveit sígauna, þrír talsins, á tvær fiðlur og kontrabassa í þeim skemmtilega, eilítið óskipulagða, stíl sem einkennir þessa músík.

Eftir mat og skemmtun var haldið upp á dekk. Meðfram Dóná voru fallegar glæsibyggingar liðins tíma lýstar upp og brugðu töfraljóma á kvöldið. Þarna var einnig nýtt þjóðleikhús þeirra Ungverja, og sýndist sitt hverjum um arkitektúrinn. Arkitektinn var víst góð vinkona forsætisráðherrans og var ákvörðun tekin um að hún fengi verkið eftir að byrjað hafði verið á þjóðleikhúsi nær miðbænum sem teiknað var af erlendum stjörnu-arkitektum. Veljum ungverskt. Menn þökkuðu sýnt þetta kvöldið og sungu íslenska söngva sem ómuðu út í húmið. Komið var heim um 11 leitið. Fengu sumir sér bjór eða dreitil í glas að lokum, og héldu svo til dyngja sinna.


Laugardagurinn 30. október.


Þennan daginn var farið í bæjarferð í rútu og var Jón Karl Einarsson leiðsögumaður. Budapest var ein af megin borgum austurísk-ungverska keisaradæmisins sem var eitt af stórveldum gömlu Evrópu, og ber þess sannarlega glæst merki. Byggð hófst þarna á dögum Rómverja Buda megin við Dóná. Á hinum bakka árinnar höfðu menn kalkbrennslu á miðöldum, en afurð þeirrar brennslu var einskonar steinlím sem notað var til bygginga. Þennan stað kölluðu menn Pest sem stendur fyrir brennsluofn, en fnykurinn frá þeim þótti auðvitað hin mesta pest. Af þessu tvennu kemur nafnið Budapest. Sem dæmi um glæsibraginn má nefna að Budapest var önnur borgin í Evrópu til að koma sér upp neðanjarðarlestarkerfi, en London var fyrst. Fyrst var ekið upp á svonefnda Frelsishæð. Þar efst trónir eina styttan, sem uppi stendur frá tímum kommúnismans, af Frelsisgyðjunni, sett upp í tilefni þess þegar Ungverjar voru frelsaðir og komust í faðm kommúnismans. Kannski merkingunni hafi verið breytt núna. Þarna var gott útsýni yfir Dóná og borgarhlutana tvo, en mistur huldi þó sýn.

Þaðan var haldið í KözpontiVásárcarnok, sem er stór og afar flott markaðshöll, með alskyns varning til sölu. Þarna gerðu sumir góð kaup á þurrkuðum sveppum, kippum af rauðum pipar og slíku. Markaðurinn var rétt hjá frelsisbrúnni, “Szabadság híd”, sem er grænmáluð járnbrú með fallegu flúri,  byggð 1896. Við hlið markaðarins var eitt af húsum verslunarháskólans í Budapest. Þar inni í sal sat Karl Marx steyptur í kopar, í þungum þönkum yfir þróun mála. Hafði hann gleymst, eða leyfðu menn honum að sitja þarna af vorkunnsemi?

Frá þessum stað var haldið að Hetjutorgi, þar sem eru minnismerki um hetjur úr sögu Magyara eða Ungverja. Þarna hafið verið komið upp risastórum tommustokk úr gulu klæði, þar sem hver sentimeter var sjálfstæður bútur. Fimm sentímetrar voru eftir sem merkti að fimm dagar voru þar til herskylda yrði aflögð í Ungverjalandi, og herinn yrði í staðinn byggður upp af sjálfboðaliðum. Hermenn voru þarna, og þegar klukkan sló tólf á hádegi þá tóku  þeir fimmta bútinn hægt og virðulega niður og brutu hann saman, meðan að eitthvert fyrirmenni hélt stutta ræðu. Fjórir dagar eftir. Eflaust hefur þeim þótt fúlt sem hafa verið kallaðir í herinn þessa síðustu daga, en hinir varpað öndinni léttar. Nú var járntjaldið fallið, Ungverjaland gengið í Evrópusambandið og engin þörf fyrir risastóran her. Þar ekki fjarri var þyrping bygginga, sem reistar höfðu verið kringum árið 1890, í tilefni 1000 ára byggðar Ungverja, en þeim hafði tekist að halda þessari frjósömu sléttu og búa þar þann tíma, en áður hafði þessi matarkista verið bitbein ýmissa þjóða, til dæmis Húna, Austgota og Rómverja. Byggingarnar voru smækkaðar eftirmyndir ýmissa frægra bygginga. Þarna var einnig stytta af óþekkta skrifara-munkinum ef kalla má því nafni, sbr. styttuna af óþekkta hermanninum. Hann virtist niðurdreginn af að sitja inni í myrkrinu og skrifa á bókfell daginn út og daginn inn, og bjó hann þó við mun betri kjör en íslenskir starfsbræður sem höfðu ekki ávaxtatré og vínekrur í bakgarðinum. Þarna var einnig fyrsta skautasvell sem tekið var í notkun í Evrópu, en skautaiðkendur höfðu víst átt það til að falla niður um vakir á ísi lagðri Dóná þegar færðist nær vori.


Áfram var haldið og að þessu sinni upp á Kastalahæðina, þar sem elstu húsin í Budapest er að finna. Þarna var umhverfi skoðað og margir fengu sér að borða. Um kvöldið var veitingastaðurinn Gundel heimsóttur, en hann er talinn glæsilegasti veitingastaðurinn í Budapest, og urðu karlmenn að ganga þar í salinn íklæddir jakka; skyrta eða peysa voru bannaðar. Þarna spiluðu afar liprir hljómlistarmenn, einnig sígaunar að því er virtist. Tóku þeir meðal annars “Dóná svo blá” og “Til eru fræ” að beiðni Sigurðar Björnssonar og líkaði hljómlistarflutningurinn vel. Maturinn var afar góður, og í lokin þegar beðið var eftir bílum mátti sjá grunsamlega mikið af allskyns hlutum merktum Gundel, sem boðnir voru til sölu og sumt býsna dýrt. Í ljós kom að veitingamaðurinn hafði forframast sem veitingamaður í New York og rekið þar frægan stað meðan á kommúnistatímanum stóð, en hafði svo flutt aftur til gamla landsins og keypt þennan stað, hlaðinn djúpri visku um kommersíalisma og hvernig megi græða aðeins meira á gestum með sölu allskyns smekklegs varnings, sem þó freistaði ekki að þessu sinni.


Sunnudagur 31. október.


Haldið var af stað upp úr níu í lítilli rútu, enda ferðafélagar aðeins 13 talsins að þessu sinni. Ætlunin var að aka í suðvestur frá Budapest, að vatninu Balaton sem er eina stöðuvatnið sem eitthvað kveður að í Ungverjalandi. Það er um 75 km langt, í um það bil 1,5 tíma akstursfjarlægð frá Budapest. Bílstjórinn var ekta Magyar, skarpleitur og þögull enda talaði hann aðeins ungversku, með fyrirmannlegt yfirvaraskegg. Bílstjórinn var sá fjórtándi í hópnum, en óheppni hinna þrettán lenti líklega á honum. Grunur leikur þó á að undir hægri skó bílstjórans hafi verið þykkur blýklumpur, sem hafði beina verkun á bensíngjöfina að því marki að lögreglan hafði sitthvað við það að athuga. Sektin var nokkuð há og var bílstjórinn heldur lympulegur á eftir.

Í bænum Tihany tóku á móti hópnum þau hjónin Marta Magnúsdóttir og Svavar Jónatansson, verkfræðingur og félagi í Rótarýklúbbnum Görðum. Þau bjuggu lengst af í Garðabænum á Bakkaflötinni en eru nú að færa sig í Kópavoginn. Svavar er einn af forvígismönnum Almennu verkfræðistofunnar, og hefur unnið að jarðhitaverkefnum í Ungverjalandi, raunar frá því áður en járntjaldið féll. Marta og Svavar leiddu hópinn upp á útsýnisstað þar sem sjá mátti yfir norðurenda Balatonvatns, og svo stutta leið gegnum bæinn þar sem margar verslanir voru. Þarna höfðu margir forkólfar ríkisins reist sér glæst sumarhýsi á tímum ráðstjórnarríkjanna, og hafði Svavar komið þar á sínum tíma.

Áfram var haldið til staðar sem lá á milli bæjanna Cserzegtomaj og Héviz, en þar höfðu Marta og Svavar nýlega byggt sér hús í félagi við vinafólk. Örskammt neðar í hlíðinni var vínekra til sölu um 2000 fermetrar, ásamt epla-, peru-, möndlu- og valhnetutrjám, og keyptu Marta og Svavar þessa vínekru ásamt litlu húsi, sem á henni stendur . Hús þetta var ætlað fyrir farandverkamenn og var risið óinnréttað.  Nú nota þau húsið sem vínkjallara en með íverustað á hæðinni og í risinu sem þau hafa innréttað snyrtilega. Vínekran gaf 250 lítra af víni þetta árið sem er óvenju lélegt, en oft má búast við 400 lítrum. Þetta eru um 1-2 dl á fermetra. Grunnur að þessu er auðvitað úrkoman en þar sem hún er af skornum skammti hafa þeir félagar borað eftir vatni til vökvunar, þannig að þarna er vatni sannarlega breytt í vín.

Marta og Svavar keyptu lóðina árið 2000. Þarna eru þrjár lóðir og býr garðyrkjumaður og hönnuður í öðru húsinu, en þriðja lóðin er enn óbyggð, í eigu ónefnds sægreifa á Íslandi. Nokkrir gestir röltu þar um og týndu 2-3 epli og dálítið af möndlum, og voru ekki stöðvuð þegar þau komu með aflann í hús enda enginn kvóti á þessu.

Á palli við aðal húsið buðu þau gestum upp á plómusnafs, eigin framleiðslu, sem reyndist bragðgóður og rótsterkur, eða 51%. Einnig bjór og eigin vínframleiðslu ásamt léttum ungverskum mat, með pylsum, salati og öðru góðgæti. Á eftir var settur fremur óformlegur Rotaryfundur sem átti eftir að standa í um fimm tíma. Svavar flutti erindi fundarins, og fjallaði það um líf og störf í Ungverjalandi. Hann sagði m.a. að fremur auðvelt hefði verið að ná sambandi við ráðherra á þeim tíma vegna verkefna sem hann vann að, en nú væri það nánast útilokað, nema auðvitað vegna þess að hann væri einnig ræðismaður Ungverja á Íslandi.  Páll Bragi Kristjónsson flutti þriggja mínútna erindi um lífið, tilveruna og bækur, þar á meðal bókina “Furðulegt háttalag hunds um nótt” eftir rithöfundinn Mark Haddon, sem Páll Bragi var að lesa þá dagana og var afar heillaður af. Páll fór að vísu dálítið yfir tímamörkin sem þó hlýtur að vera í lagi á svo löngum fundi.

Á heimleið lóðsuðu Marta og Svavar hópinn til Héviz þar sem er gígur einn stór, fylltur af ylvolgu vatni, sem Ungverjar nota til baða og heilsubótar. Vatnið kemur upp í botni gígsins og endurnýjast á einum sólarhring. Svavar upplýsti hópinn um að vatnið væri örlítið geislavirkt, og hefði fólk þarna þá trú í hávegum að það væri sérstaklega gott fyrir beinin. Áfram var haldið til sumarbústaðar sem kóngur einn og drottning byggðu sér á öldum fyrr, og dugði ekki minna en stór og glæst höll sem nefnist Keszthely.

Ingibjörg forseti hafði gefið í skyn að á heimleið mætti búast við leynierindi, enda hafði fundi ekki verið slitið. Þá stóð upp í bílnum Sverrir Sveinn Sigurðarson, viðskiptafræðingur og hélt tölu um Vatnajökulsþjóðarð, sem verður stærsti þjóðgarður Evrópu. Raunar hafði Skaftafellsþjóðgarður verið stækkaður þannig að hann nær nú yfir 57% af jöklinum auk Lakagíga, og telst þjóðgarðurinn sá stærsti í Evrópu nú þegar. Gerðist það þremur dögum áður en þessi fundur fór fram í nágrenni Budapest. Sverrir fjallaði um hvernig þjóðgarðurinn gæti styrkt náttúruímynd Íslands og þar með bætt skilyrði ýmissa atvinnugreina, þeirra á meðal ferðaþjónustu. Hann talaði einnig um forsögu málsins, en málið er honum skylt þar sem hann talaði fyrir stofnun stórs náttúruverndarsvæðis eða þjóðgarðs með friðlýsingu Vatnajökuls áður en ákvörðun var tekin af Alþingi um að slíkt skyldi skoðað formlega, og var einn um að tala um það framanaf.

Á meðan á ferðinni stóð flutti Þóra G. Möller einnig ljóð eftir Bjarna Thorarensen án bókar og eftir minni, og fórst það afar vel úr hendi. Það var Erfikvæði um Rannveigu Filipusdóttur.

Í lok ferðar kom hópurinn mildilega fram við bílstjórann þó hann hefði í raun sett hópinn í hættu í öryggisbeltalausum bíl. Honum var greitt þjórfé sem dugði fyrir sektinni, og svo mikið umfram að jafngilti líklega um 10% af mánaðarlaunum hans. Gott er að aka fólki frá landi þar sem allt er svo dýrt að lítil upphæð í þjórfé á mann verður að slíkum auðæfum í vasa óbreytts ungversks bílstjóra.

Um kvöldið var borðaður á veitingastað hótelsins fremur einfaldur kvöldverður, í samanburði við næstu tvö kvöld á undan. Snemma gengið til náða, enda ljóst að afslöppunarferðir erlendis geta verið hið mesta púl.


Mánudagur 1. nóvember.


Í veitingasal var snæddur ágætur morgunverður, þar á meðal steiktar pylsur, beikon og egg sem ekki er daglega á borðum flestra en gaf þó góða orku fyrir daginn. Ferðafélagar tékkuðu sig út af hótelinu enda yrði ekið beint á flugvöll að lokinni dagsferð. Sumir gerðu það með takmörkuðum söknuði, enda höfðu drukknir og hávaðasamir norðmenn haldið vöku fyrir fólki á 6. hæð um nóttina. Ekið var í norður til Esztergom, þar sem er að finna stærstu dómkirkju í Ungverjalandi, vígð heilagri Maríu. Vegna Allra heilagra messu var turninn lokaður sem var slæmt, enda hefðu 400 þrepin þangað upp (og jafnmörg niður) boðið upp á ágætis eróbikk eftir pylsu og beikon morgunsins. Þarna mátti horfa yfir Dóná yfir til Slóvakíu.

Frá Esztergom var ekið að glæsilegum veiðikofa í skógi vaxinni hlíð á bakka Dónár, nálægt kastalanum Visegrád sem merkir háavirki. Staðurinn er þekktur úr sögunni sem fundarstaður valdsmanna í þessum löndum. Þar var boðið upp á dýrindis villibráðarsúpu og kjöt af hirti einum sem hætti sér of nærri ungverskum veiðimönnum skömmu áður. Undir borðhaldinu spilaði hljómsveit sígauna, hvað annað, og var spilamennskan skemmtilega “frjálsleg” eins og þeirra er siður. Þeir spiluðu á fiðlur, kontrabassa og ásláttarhljóðfæri með strengjum, hugsanlega svokallað spinet. Sá spilaði sóló, með sífellt meiri æsingi og virtist sem hann hefði hreinlega misst vitið, svo hröð og æðisgengin var spilamennskan. Kom í ljós að annar félagi hans hafði hulið augu hans með klæðisbút, þó ekki til að fá hann til að hætta heldur var þetta gert fyrir uppákomuna. Í eftirrétt var innbakað epli, mjög bragðgott en nokkuð saðsamt af eftirrétt að vera.

Saddur og sæll hélt hópurinn til lítils bæjar sem heitir Szentendre, sem á íslensku merkir Sankti Andrés. Þar voru þröngar götur með verslunum, veitingastöðum og nokkrum litlum söfnum, auk torgs og tveggja kirkna, sem gaman var að skoða. Þar mátti fá marga fallega muni, allt frá hekluðum dúkum, fjölbreyttum minjagripum, sælgæti, víni, postulíni og kristal og skinna af villisvínum til rússneskra herforingjakaskeita og hjálma sem flugmenn sovéskra MIG orrustuþotna notuðu, með heyrnartólum og öllu (þota fylgdi ekki með). Þarna voru einnig hraðbankar svo að kaupþyrstir ferðalangar gætu tekið út pening til að versla. Sniðugt. Þarna undu ferðafélagar sér í nokkra klukkutíma, en um fimmleitið var öllum smalað í rútu og ekið til flugvallarins. Eftir inntékkun tók við dæmigerð flugvallarbið um nokkra stund, þar sem fólk fékk sér seinasta ungverska bjórinn og ef til vill dálítið í gogginn. Þarna kom upp þessi skemmtilegi kauphvirfilbylur sem stundum brestur á án fyrirvara, þar sem nokkrir viðstaddir uppgötvuðu 20 lítra handtösku, úr þunnu efni og hentuga á ferðalögum, sem kostaði aðeins 9 evrur. Þetta urðu allir (allar) skyndilega að eignast, einstaklega sniðugt, og seldust töskurnar upp í fríhafnarversluninni á augabragði. Ferðin heim var róleg og áfallalaus, og héldu Rótarýfélagar til síns heima, ánægðir eftir góða ferð.

(10. nóvember 2004, Sverrir Sv. Sigurðarson)


Til baka


yfirlit frétta

SMÞMFFL
2526272829301
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
303112345
<Október 2022>
Fundarefni
Hlekkir

 Rótaryumdæmið á Íslandi

 

URR - Unglinganámskeið Rótarý í ræðulist

 

 

  Vesturför 2005